Góðan dag
- Í dag er
Föstudagur 29. mars 2024
Öryggi

Þjónustugátt Neytendastofu er varin með SSL (eða Verisign). Það þýðir að öll samskipti á vefnum eru dulkóðuð. Þetta getur notandinn séð á því að þegar hann skráir sig inn í þjónustugáttina þá breytist vefslóðin úr http í https. Á öruggu vefsvæði birtist einnig lokaður hengilás neðst til hægri í vefskoðaranum. Með þessu móti má því alltaf sannreyna hvort tiltekin vefsíða sé örugg (e. Secure).

Þegar notandi sækir um aðgang að þjónustugáttinni þá fær hann sent notendanafn og lykilorð í tölvupósti á það tölvupóstfang sem notandi ákveður við frumskráningu sína í þjónustugátt Neytendastofu. Þessar upplýsingar eru einnig sendar í venjulegum pósti til viðkomandi aðila. Lykilorð eru dulrituð í grunni kerfisins og enginn hefur því aðgang að þeim. Ef notandi týnir lykilorðinu sínu, þá býr kerfið til nýtt lykilorð þegar smellt er á TÝNT LYKILORÐ á forsíðu Rafrænnar Neytendastofu.

Lykilorðið kemur í veg fyrir að óviðkomandi aðilar komist inn á svæði notanda og ber notandi ábyrgð á öllum aðgerðum sem framkvæmdar eru undir hans lykilorði. Leiki einhver grunur á að aðrir viti lykilorðið er nauðsynlegt að breyta því við fyrsta tækifæri. Það má gera í þjónustugáttinni undir: Síðan mín -> Breyta lykilorði.

Það er skynsamlegt að breyta lykilorði reglulega af öryggisástæðum. Lykilorð verður að vera minnst átta stafa langt. Það má vera samsett út tölustöfum og bókstöfum.

Skráður notandi hefur einn yfirsýn yfir öll sín mál. Einstakir starfsmenn Neytendastofu sjá síðan bara það sem þeim er ætlað starfi sínu samkvæmt að sjá.

Vistun gagna

Öll kerfi og persónugreinanleg gögn sem notendur á þjónustugátt Neytendastofu geta skoðað eru hýst á vélbúnaði hjá Símanum sem er sérhæft í hýsingu og rekstri tölvukerfa. Síminn starfar samkvæmt ströngum öryggisreglum og stöðlum og er alls öryggis gagna og kerfa vandlega gætt með það að markmiði að enginn óviðkomandi aðili geti komist í kerfin eða þau gögn sem tilheyra kerfinu og notendum þess. Öll gagnasamskipti við önnur kerfi fara fram eftir öruggum leiðum og gögn eru dulkóðuð í sendingum.